Útgáfufyrirtækið Smekkleysa sm.ehf. gefur út tvær bækur á þessu ári. Önnur þeirra er þegar komin út:
Ferðalag um Ísland – Úr myrkri til birtu eftir bandaríska rithöfundinn Erin Boggs og Einar Örn Benediktsson. Bókin samanstendur af ljóðum Erinar, sem hún orti undir áhrifum frá íslensku umhverfi og mannlífi, og kolateikningum Einars, sem eru sjálfstæðar myndir en vinna með ljóðunum í því miði að skapa leyndardómsfulla fegurð náttúru og þess manngerða. Ferðalag um Ísland er sannkallaður prentgripur, í stóru formi, bæði á ensku og íslensku, og hefur að geyma 50 myndir og ljóð, auk þess sem tónlist eftir Kaktus Einarsson er samin sérstaklega fyrir verkefnið.
Sýning byggða á bókinni verður opnuð laugardaginn 2. nóvember í Listamenn Gallerí.
Í bókinni Innanríkið – Alexíus sýnir Bragi Ólafsson á sér nýja hlið sem höfundur, og beinir athyglinni að því sem ekki telst endilega vera skáldskapur. Rammi bókarinnar er atvik sem faðir Braga upplifði fyrir aldarfjórðungi, þegar ókunnugur maður birtist honum í nokkur augnablik á heimili hans, og rannsókn föðurins á því hver maðurinn gæti hafi verið, sem leiðir til óvæntrar niðurstöðu. Samhliða þessum þræði skoðar Bragi ýmislegt í sögu fjölskyldunnar og sinnar eigin; hann flakkar um fortíð og nútíð, frá miðbæ Reykjavíkur upp á Mýrar í Borgarfirði, og út í heim, með viðkomu í hugarheimi annarra höfunda. Fjöldi ljósmynda prýðir bókina.
Smekkleysa hefur frá stofnun, árið 1986, gefið út fjölda bóka, þótt megináhersla útgáfunnar hafi alltaf verið tónlist. Fyrsta útgefna bók Smekkleysu var ljóðabókin Dragsúgur eftir Braga, og meðal annarra eru tvær bækur sem Bragi og Einar Örn unnu að saman, nú síðast bókverkið Út úr mátunarklefanum, sem kom út í fyrra.