Þrjá laugardaga í sumar verður sannkölluð tónlistarveisla í plötubúðum í miðbæ Reykjavíkur þar sem hver viðburðurinn rekur annan og gestir geta því gengið á milli verslana og hlýtt á tónleika. Aðgangur er ókeypis.
Verslanirnar sem taka þátt eru 12 tónar, Geisladiskabúð Valda (ein dagsetning), Lucky Records, Reykjavík Record Shop og Smekkleysa.
Dagskrá laugardaginn 11. júlí:
14.00 gugusar @ Mengi / Smekkleysa
15.00 GDRN @ Lucky Records
16:00 Þórir Georg @ Reykjavík Record Shop
17.00 Kælan Mikla @ 12 Tónar
Verkefnið er unnið í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík með stuðning Sumarborgarinnar, FHF, FÍH og STEF.
Reykjavík er svo heppin að vera ein af þeim borgum sem enn státar af flottum hljómplötuverslunum og hafa sumar þeirra jafnvel komist á lista yfir bestu plötubúðir í heimi. Hljómplötuverslanir gegna mikilvægu hlutverki í hagkerfi tónlistarlífsins og það er því mikilvægt að halda þeim gangandi.
Plötuverslanir gegna einnig mikilvægu samfélagslegu hlutverki fyrir tónlistarlífið og þangað koma t.d. ferðamenn til að fræðast um tónlistarlífið og fá upplýsingar um viðburði sem þeir geta sótt í nágrenninu. Nú er ljóst að rekstur þessara verslana sem var viðkæmur fyrir mun verður erfiður á næstu mánuðum og mun sumarið í ár ekki verða sá gjöfuli tími sem það hefur verið undanfarin ár þegar höfuðborgin hefur verið full af ferðamönnum sem margir hverjir sækja þessar verslanir til að kynnast tónlistarlífinu.
Sýnum stuðning í verki, elskum plötuverslanir og sækjum þær heim í sumar!