Hljóð- og sjónræna innsetningin Hollow verður frumsýnd í Hörpu þann 24. ágúst. Verkið er hannað
af Lilju Maríu Ásmundsdóttur og er innsetningin fyrir málmskúlptúr, myndband, dansara,
hljóðfæraleikara og rafpart. Verkið er flutt af Berglindi Maríu Tómasdóttur á bassaflautu, Heklu
Magnúsdóttur þeramínleikara, Mikael Mána Ásmundssyni rafmagnsgítarleikara, Lilju Maríu á
skúlptúrinn Huldu og dönsurunum Erlu Rut Mathiesen, Eydísi Rose Vilmundardóttur og Söru Margréti Ragnarsdóttur.
Málmskúlptúrinn er samsettur úr nokkrum málmplötum og dansararnir virkja hljóðeiginleika þeirra
með hreyfingum sínum á meðan hljóðfæraleikararnir spinna út frá hljóð- og sjónrænum eiginleikum
innsetningarinnar. Myndefni verksins er tekið upp í helli í Hollandi en þróun innsetningarinnar
byggist á samtali milli hreyfinga myndavélarinnar og hreyfingu sólarljóss sem dansaði í gegnum foss yfir á veggi hellisins þegar upptökur áttu sér stað.
Sýningin er opin frá 19:30-22:00. Sýningin er 30 mínútur að lengd og áhorfendum er hleypt inn á heila og hálfa tímanum.
Miða á sýninguna er hægt að kaupa í miðsölu Hörpu og hér.
Lilja gaf á dögunum út hið kyngimagnaða verk Internal Human á Smekkleysu ásamt portúgalska dansaranum Ines Zinho Pinheiro.