Hljóð- og sjónræna innsetningin Hollow verður frumsýnd í Hörpu þann 24. ágúst. Verkið er hannað
af Lilju Maríu Ásmundsdóttur og er innsetningin fyrir málmskúlptúr, myndband, dansara,
hljóðfæraleikara og rafpart. Verkið er flutt af Berglindi Maríu Tómasdóttur á bassaflautu, Heklu
Magnúsdóttur þeramínleikara, Mikael Mána Ásmundssyni rafmagnsgítarleikara, Lilju Maríu á
skúlptúrinn Huldu og dönsurunum Erlu Rut Mathiesen, Eydísi Rose Vilmundardóttur og Söru Margréti Ragnarsdóttur.

Lilja María Ásmundsdóttir

Málmskúlptúrinn er samsettur úr nokkrum málmplötum og dansararnir virkja hljóðeiginleika þeirra
með hreyfingum sínum á meðan hljóðfæraleikararnir spinna út frá hljóð- og sjónrænum eiginleikum
innsetningarinnar. Myndefni verksins er tekið upp í helli í Hollandi en þróun innsetningarinnar
byggist á samtali milli hreyfinga myndavélarinnar og hreyfingu sólarljóss sem dansaði í gegnum foss yfir á veggi hellisins þegar upptökur áttu sér stað.

Sýningin er opin frá 19:30-22:00. Sýningin er 30 mínútur að lengd og áhorfendum er hleypt inn á heila og hálfa tímanum.

Miða á sýninguna er hægt að kaupa í miðsölu Hörpu og hér.

Lilja gaf á dögunum út hið kyngimagnaða verk Internal Human á Smekkleysu ásamt portúgalska dansaranum Ines Zinho Pinheiro.

Review