Föstudaginn 11. september mun hljómsveit gítarleikarans Mikaels Mána halda tónleika í Mengi. Bandið mun leika nýtt efni af annarri sólóplötu Mikaels sem er nú í smíðum og verður tekin upp í september 2020.

Á tónleikunum má heyra nýjar tónsmíðar eftir Mikael sem samdar eru um fólk, kvikmyndir og setningar sem mótað hafa líf og persónuleika hans – hlutir sem vekja hann til umhugsunar og láta honum líða vel og illa. Mikael gaf út sína fyrstu plötu, Bobby, í júní 2019 með tríói sínu og var hann tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2020 fyrir lagasmíðarnar á þeirri plötu, auk þess sem hann hlaut lof gagnrýnenda.

Tónlistin sem flutt verður á tónleikunum er “Jarm” tónlist en það er ný tónlistarstefna sem blandar saman jazzi, impressionisma og rokki. Hljóðfæraskipan hljómsveitarinnar er afar spennandi, en Mikael samdi lögin fyrir saxófón og klarinett, metalafón og píanó, gítar, rafbassa og trommur. Meðlimir hljómsveitarinnar skarta afar fjölbreyttum bakgrunni og kemur hér saman tónlistarfólk úr heimi klassískrar- og samtímatónlistar, jazzi og poppi. Saman vinna meðlimir bandsins að útsetningum og myndun þessa nýja hljóðheims og er útkoman í senn nýstárleg og grípandi.


Bandið skipa:
Lilja María Ásmundsdóttir, píanó og metalafónn
Sölvi Kolbeinsson, alto sax og klarinett
Ingibjörg Elsa Turchi, rafbassa
Magnús Trygvason Elíassen, trommur
Mikael Máni Ásmundsson, rafgítar


Rýni um Bobby: “Það er sjaldgæft að fá í hendurnar jafn margslungna plötu og Bobby er. Við fyrstu hlustanir er um stórkostlega djúpa, ljóðræna og blíða djassplötu að ræða sem er jafnframt bæði gefandi og krefjandi.”
– Ragnheiður Eiríksdóttir fyrir Morgunblaðið

Miðaverð á tónleikana er 2.500 kr.

Review