Endrum og eins verðum við þeirrar lukku aðnjótandi að fá lagalista frá tónlistarfólki sem hefur tengingu við Smekkleysu. Í þetta skiptið er það enginn annar en kántrísöngvarinn, kuldapopparinn, trommarinn og harðkjarnagoðsögnin Oddur Hrafn Björgvinsson. Oddur Hrafn er best þekktur sem Krummi og skaust uppá stjörnuhimininn með látum um aldamótin með hljómsveit sinni Mínus.

Krummi er með breiðskífu í smíðum inniheldur hreinræktað kántrí og gaf út smáskífuna og myndbandið “Frozen Teardrops” 11. september síðastliðin.

Krummi hefur frá unga aldri verið að fást við tónlist og á að baki farsælan feril með áðurnefndri Mínus sem gáfu út þrjár framúrskarandi breiðskífur á vegum Smekkleysu. Fyrsta breiðskífa Mínus, Hey Johnny, kom út árið 1999 á vegum Dennis Records. Útgáfumerki Krumma og Frosta Logasonar Mannaskítur Inc. gáfu árið áður út fyrstu þröngskífu Mínus, demo EP.

Hinar breiðskífur Mínus eru Jesus Christ Bobby, Halldór Laxness og The Great Northern Whalekill. Hljómsveitin gerði einnig tónlist við kvikmyndina Strákarnir okkar ásamt Barða Jóhannssyni úr Bang Gang undir nafninu Mínusbarði.

Krummi á einnig að baki útgáfur með hinni frábæru og myrku rafrokksveit Legend, Esja og Döpur.

Krummi er mjög ástríðufullur tónlistarmaður og tónlistarunnandi og hefur samhliða tónlistarferli sínum starfað sem bókari og plötusnúður. Við nálguðumst Krumma og báðum hann að setja saman lista og eins og honum er von og vísa þá setti hann saman 50 lög á lista. Á listanum má finna lög tónlistararfi Bandaríkjanna. Lögin sem prýða listann eru eftir Kitty Wells, Bob Dylan, Peggy Seeger, Blind Lemon Jefferson, The Carter Family, Michael Hurley, Jean Richie og svo framvegis.

Review