Við höldum stuðpakkaða skemmtun á sjálfan Þjóðhátíðardaginn 17. júní. Við byrjum daginn klukkan 16:00 í búðinni okkar á Skólavörðustíg 16 (Óðinsgötumegin) þar sem ýmsir plötusnúðar og hljómsveitir deila með okkur list sinni á Smengi númer 10. Smengi er tónleikaröð Smekkleysu og Mengi við Óðinsgötu.
Fram koma hljómsveitirnar Skoffín og Supersport! og sömuleiðis mun sjálf K.óla þeyta skífum og Slummi verður henni til halds og trausts. Aldrei að vita nema fleiri muni dúkka upp.
Skoffín er póstpönkað verkefni Jóhannesar Bjarka Bjarkasonar Theolin og hefur hann gefið út breiðskífurnar “Skoffín hentar íslenskum aðstæðum” og “Skoffín bjargar heiminum. Post-dreifing gefur þær út.
Supersport! fæddist í Reykjavík haustið 2019, og var í upphafi afurð samstarfs Bjarna Daníels og Þóru Birgitar, sem áður unnu saman með hljómsveitinni bagdad brothers. Síðan þá hefur sveitin vaxið í umsvifum og er í dag dýnamískur ferhyrningur – Dagur Reykdal (úr Tucker Carlson’s Jonestown Massacre og Váru) og Hugi Kjartansson eru hinir tveir meðlimirnir. Verkefnið hefur þegar í stað vakið áhuga í reykvísku grasrótinni, enda eru allir meðlimir virkir skipuleggjendur hjá listasamlaginu post-dreifingu. Supersport! sækir sér innblástur víða að; popparakanónur á borð við Magga Eiríks og Paul McCartney, urrandi gítarrokk tíunda áratugarins, samtíma indie-folk, og B-hryllingsmyndir eru meðal áhrifavalda sveitarinnar. Hljómsveitin leggur auk þess mikla áherslu á DIT-hugmyndafræðina sem Post-dreifing hefur fyrir löngu gert fræga, og leggur sig fram um að vinna sem mest með öðru listafólki. Fyrsta smáskífa Supersport!; ,,Ég smánaði mig”, kom út hjá post-dreifingu í febrúar sl., og er EP-plata væntanleg síðar í júnímánuði.
K.óla (Katrín Helga Ólafsdóttir) er 22 ára Listakona frá Hafnarfirði.
Hún hefur gefið út 2 plötur með hljómsveitinni sinni Milkhouse, Baratís í Paradís, 2015. og Painted Mirrors, 2017. Hún hefur einnig gefið út sjálf 2 plötur í handgerðum umslögum.
Hún er stoltur meðlimur Post-dreifingar.