Damon sótti innblástur til Esjunnar, Akrafjalls og Skarðsheiðar við lagasmíðarnar á nýjustu breiðskífu sinni

Tónlistarmaðurinn Damon Albarn er flestum Íslendingum góðu kunnur en hann hefur átt aðsetur hér á landi í mörg ár. Damon varð fyrst kunnur sem forsprakki og söngvari hinnar geðþekku Bretapoppsveitar Blur sem gerði garðinn frægan í upphafi tíunnar á síðustu öld. Í seinni tíð hefur hann leitt Gorillaz sem á marga poppsmelli ásamt því að vinna með hljómsveitum á borð við The Good, The Bad and The Queen og Africa Express ásamt því að hafa gefið út tvær sólóskífur.

Damon gaf út The Nearer The Fountain, More Pure the Stream Flows 12. nóvember síðastliðinn og sótti hann innblástur í lagasmíðarnar að mestu leyti til Íslands og íslenskrar náttúru. Damon hefur haft aðsetur á Íslandi í þónokkur ár og er hann með íslenskan ríkisborgararétt.

Í tilkynningu um tónleikana segir: “Damon hefur verið tíður gestur á Íslandi í tæplega þrjá áratugi og hefur á þessum tíma verið innblásinn af náttúru þess og landslagi. Nýja verkið hans er afleiðing af þessari ást hans á Íslandi og mun hann flytja þetta mjög svo persónulega verk með hópi tónlistarmanna. Tónleikarnir eru hans fyrstu á Íslandi í 23 ár.”

Damon Albarn Fountain
Nýjasta breiðskífa Damons kom einnig út sem viðhafnarútgáfa

Damon flytur breiðskífuna í heild sinni á tónleikum í Hörpu föstudaginn 11. mars næstkomandi og eru tónleikarnir þeir síðustu á tónleikaferð hans um Evrópu til kynningar breiðskífunnar. Damon mun flytja plötuna í heild sinni á tónleikunum ásamt hljómsveit sinni. Miða á tónleikana má meðal annars kaupa með því að smella hér.