Þetta ár er sannarlega búið að vera eitt skrítnasta og að mörgu leyti það erfiðasta sem fólk hefur upplifað.  2020 er sem betur fer ekki tónlistarlaust ár og erum við Íslendingar lánsöm að eiga ógrynni af frábæru tónlistarfólki og hér eru nokkrar frábærar plötur sem komið hafa út í ár.

Jónsi úr Sigur Rós sneri aftur með sína aðra sólóskífu undir eigin nafni en hann hefur áður gefið út undir nafninu Frakkur.  Önnur breiðskífa Jónsa heitir Shiver og hefur hún verið í vinnslu síðan hann gaf út Go árið 2010.  Shiver vann hann ásamt upptökustjóranum AG Cook sem þekktur er fyrir að hafa vélað breiðskífur Charli XCX.  Með Jónsa syngja sænska poppsöngkonan Robyn og Liz Frazer úr Cocteau Twins.

Ingibjörg Elsa Turchi hefur sent frá sér sína fyrstu sólóskífu sem heitir Meliae og inniheldur hún tilraunakenndan bræðing af djass, sveimtónlist og rokki.  Ingibjörg er landskunn fyrir bassaleik sinn með Rökkurró, Boogie Trouble, Bubba Morthens og Stuðmönnum.  Á Meliae spila einnig meðlimir ADHD, Moses Hightower, Grísalappalísu o.fl.

K.óla hefur nú sent frá sér tvær kyngimagnaðar indie-poppskífur á einni og sömu vínilplötunni.  K.óla er hluti af Post-dreifingu sem er eitt það ungæðislegasta og skemmtilegasta sem hefur gerst síðan Smekkleysa var stofnuð á sínum tíma.   

The Reykjavík Grapevine hafa kallað breiðskífu Skoffín‘s Hentar íslenskum aðstæðum sándtrakkið fyrir það augnablik sem maður er hrakinn úr samfélaginu.  Þetta er einn hressasta rokkplata sem komið hefur út á Íslandi lengi.

Mammút hafa sent frá sér fimmtu breiðskífu sína sem heitir Ride The Fire og er hún unnin á Íslandi og í Bretlandi í samvinnu við bassaleikara The Vaccines, Árna Hjörvar Árnason, ásamt Sam Slater sem hljómblandaði bæði Joker og Chernobyl eftir Hildi Guðnadóttur.

Skálmöld fögnuðu 10 ára afmæli sínu með risatónleikum í Gamla Bíó 19. desember í fyrra og nú er komin út tvöföld vínilplata og tvöfaldur geisladiskum með Blu-Ray með þeim.

Hin unga og efnilega gugusar sendi í sumar frá sér sína fyrstu breiðskífu aðeins 15 ára gömul.  Hún vakti fyrst athygli á sér í Músíktilraunum árið 2019 og hefur hún bara vaxið síðan.  Þessi frábæra poppskífa minnir m.a. á Injury Reserve og Billie Eilish.

3 er nýjasta breiðskífa hins rómaða djasspíanóleikara Tómas Jónsson úr ADHD.  3 er stútfull af skemmtilegum lagasmíðum þar sem raftónlist, funk, djass og fleiri stefnur mætast í djörfum dansi.  Meðal gestaspilara eru Ásgeir Trausti sem og meðlimir ADHD, Hjálma, John Grant o.fl..

Review