Það eru stórmerkilegir hlutir að fara að gerast í Hörpu næstkomandi þriðjudag.

Tónskáldið Lilja María Ásmundsdóttir og dansarinn Inês Zinho Pinheiro hafa unnið saman að ýmsum verkefnum síðan 2018. Síðastliðin tvö ár hafa þær skipst á myndböndum, hljóðbrotum og hugsunum tengdum innra lífi flytjandans. Úr hugmyndum þeirra varð til verkið Internal Human sem hefur þróast bæði sem sviðsverk og sem myndbandsinnsetning. Sviðsverkið verður frumsýnt í Hörpu þann 26. júlí kl. 20:00 í tilefni af útgáfu verksins. 

Sýningin hefst í Norðurbryggju og liggur leiðin síðan inn í Kaldalón. Verkið er innblásið af hljóðskúlptúr sem Lilja María smíðaði árið 2020. Skúlptúrinn var hannaður út frá hugmyndum um hvers konar hreyfingar myndast náttúrulega þegar leikið er á strengina. Lilja María spilar á skúlptúrinn og önnur hljóðfæri á meðan Inês yfirfærir hreyfingar hennar á mismunandi umhverfi sem varpað er inn í salinn. Teikningarnar og  arkítektúrinn sem finna má í myndvörpuninni voru valin út frá sjónrænum tengingum við hönnun skúlptúrsins. Formin í myndvörpuninni veita  Inês síðan innblástur til að þróa hreyfingarnar í nýjar áttir. 

Flutningurinn tekur um klukkustund og er án hlés.
Almennt miðaverð er kr. 2900 en skólafólk, eldri borgarar og öryrkjar fá 15% afslátt í miðasölu Hörpu.

Review