Smekkleysa Plötubúð, STAK og Sumarborgin kynna fría tónleika með Önnu Sóley og Mikael Mána í Smekkleysu Plötubúð við Hjartatorg.

Systkinin Anna Sóley og Mikael Máni ætla að spila dúó sett í Smekkleysu í tilefni af útgáfu smáskífunnar Brighter Day.

Lagið kemur út deginum áður á öllum helstu streymisveitum og er forsmekkur af væntanlegri breiðskífu sem kemur út í haust undir nafninu Modern Age Ophelia. Platan mun innihalda lög og texta eftir Önnu Sóley. Þar koma saman mismunandi stílar, módern jazz, grúf, popp og alþýðutónlist, ásamt textum með einn fótinn í raunveruleikanum og hinn í draumheimum.