Endrum og eins verðum við þeirrar lukku aðnjótandi að fá lagalista frá tónlistarfólki sem hefur tengingu við Smekkleysu. Í þetta skiptið er það engin önnur en fiðluleikarinn og tónskáldið María Huld Markan Sigfúsdóttir. María hóf sinn feril sem fiðluleikari í Tónlistarskóla Reykjavíkur og útskrifaðist síðar í Listaháskóla Íslands þar sem hún nam tónsmíðar. Á meðan María var menntaskólanemi stofnaði hún strengjakvartet sem síðar varð hljómsveitin amiina sem hún starfrækir enn þann dag í dag.

María Huld Markan Sigfúsdóttir

María er virkur þátttakandi í hinni blómstrandi tónskáldasenu sem heldur betur hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu ár. Verk Maríu hafa verið flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands og komu út á hljómdiskunum Recurrence og Concurrence. Concurrence hefur nú hlotið tilnefningu til Grammy-verðlauna árið 2020 og er það mikill heiður. Í janúar næstkomandi kemur svo út hljómdiskurinn Kom vinur sem inniheldur tvo kórverk eftir hana.

María er eftirsóttur meðspilari og hefur spilað inn á breiðskífur Spiritualized, Gyðu Valtýsdóttur, Juliana Barwick, Yann Tiersen, Sigur Rós, Ólafar Arnalds og Canon Bleu svo fáeinar séu nefndar. Hún á stóran hlut í Odin’s Raven Magic sem hún vann ásamt Sigur Rós, Hilmari Erni Hilmarrssyni, Steindóri Andersen og fleirum.

Við fengum Maríu til að setja saman lagalista með lögum sem veita henni innblástur og má heyra fjölbreytt safn laga með Morton Feldman, Colleen, Kjartani Sveinssyni, Zeena Parkins, Boards of Canada, Tom Waits, St. Vincent, Brian Eno o.s.frv.

Review