Endrum og eins verðum við þeirrar lukku aðnjótandi að fá lagalista frá tónlistarfólki sem hefur tengingu við Smekkleysu. Í þetta skiptið er það engin önnur en jazz- og poppdívan sjálf hún Stína Ágústsdóttir. Stína er fædd og uppalin á Íslandi en hefur m.a. búið Danmörku, Kanada og Englandi. Hún starfar og býr í dag í Svíþjóð og er skífan hennar The Whale að koma út í Evrópu á vegum Smekkleysu og Border.

The Whale fékk lofsamlega umfjöllun um hjá hinum virta blaðamanni og ljósmyndara Leif Wigh hjá Orkester Journalen.

The Whale gaf hún út ásamt tríói sínu Stína Ágústsdóttir Trio sem er skipað henni, Önnu Grétu Sigurðardóttur píanóleikara og Mikael Mána Ásmundssyni gítarleikara.

Stína er búin að vera syngjandi frá því hún var barn án þess að hafa það á stefnuskránni að leggja sönginn fyrir sig sem ævistarf. Hún útskrifaðist í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og stofnaði sprotafyrirtæki í kjölfarið á útskriftinni. Söngurinn blundaði alltaf djúpt í henni og eftir nokkra viðkomu í tæknigeiranum hlustaði hún á hjartað og skráði sig í Söngskóla Reykjavíkur og fór þaðan í söngnám í Vocaltech í London. Stína hefur gefið út fimm skífur í eigin nafni og hefur einnig unnið með hljómsveitum á borð við AXXE, Nista, 23/8 og það nýjasta frá henni er samstarf með íslenska rapparanum Kilo.

Við settum okkur í samband við Stínu og fengum hana til þess að setja saman safn af lögum sem veita henni innblástur og má tónlistarfólk á borð við Colin Stetson, Little Simz, Radiohead, Björk, Frank Ocean, Burial, Nick Drake, Magnús Jóhann, Feist og Joni Mitchell svo fáein séu nefnd.

Review