Myndbandið við Ancestress er dulúðlegt

Tíunda hljóðversskífa Bjarkar Guðmundsdóttur, Fossora, er væntanleg í Smekkleysu sem og í aðrar plötubúðir 30. september næstkomandi. Þriðja smáskífan af plötunni er komin út og er það hið sjö mínútna stórvirki “Ancestress” þar sem hún syngur ásamt syni sínum, Sindra Eldon, í fyrsta skiptið á ferli sínum. Sindri og er alls enginn nýgræðingur í tónlist þar sem hann hefur spilað og sungið með hljómsveitum á borð við Slugs, Sumar stelpur og Dáðadrengir ásamt því að gefa út undir sínu eigin nafni.

Sindri Eldon

Myndbandið við “Ancestress” var frumsýnt í dag og er leikstýrt af myndlistarmanninum og leikstjóranum Andrew Thomas Huang. Andrew hefur áður leikstýrt nokkrum myndböndum Bjarkar ásamt því að gera myndbönd fyrir Sigur Rós, FKA Twigs, Kelela, Atoms For Peace og fleira tónlistarfólk.

Í “Ancestress” syngur Björk til móður sinnar, Hildar Rúnu Hauksdóttur, sem lést árið 2018. Hildur var mikill náttúrverndarsinni og brann sömuleiðis fyrir andlegum málefnum og lagði stund á náttúrulækningar um langt skeið.

Review