Chromo Sapiens – Tónlist fyrir Shoplifter er nýjasta afurð hljómsveitarinnar HAM. Tónlistin á plötunni var unnin í tengslum við sýningu listakonunnar Hrafnhildar Arnardóttur/Shoplifter, Chromo Sapiens, sem var framlag Íslands á 58. Feneyjavíæringnum 2019.
Á plötunni er að finna hljóðverkið sem ómar í hellunum þremur sem sýning Hrafnhildar samanstendur af. Í verkinu ganga gestir inn í rými sem er þrískipt og hefur hvert rými, eða hellir, sitt nafn. Hljóðverkið er í þremur hlutum og ber hver hluti nafn þess hellis sem það er samið í kringum. Þá er að finna á plötunni tvö lög að auki, annarsvegar einskonar þjóðsöng sýningarinnar og svo lag sem unnið er á nótnagrunni hellanna þriggja, Haf trú.
Platan var tekin upp í Echo Canyon West hljóðveri Lee Ranaldo og félaga í Sonic Youth, í Hoboken New Jersey. Upptökum stýrði Skúli Sverrisson, tónskáld og bassaleikari, Timothy Glasgow var tæknimaður og hljóðblandaði hellana þrjá, Chris McLaughlin og Aaron Murray hljóðblönduðu sitt hvort lagið og Howie Weinberg sá um hljómjöfnun.
Hljómsveitin HAM er goðsögn í íslenskri tónlistarsögu, hefur starfað með hléum frá árinu 1988 og gefið út nokkurn fjölda hljómplatna, nú síðast Söngvar um helvíti mannanna árið 2017.
Reviews
There are no reviews yet.